Kaflaskil

Á þessari heimasíðu getur þú aflað þér upplýsinga ef það er komið að kaflaskilum í lífi þínu, að því varðar skilnað við maka, hvort heldur er í gegnum hjúskap eða sambúðarslit.

Viljir þú frekari upplýsingar eru lögmenn LOCAL lögmanna reiðubúnir að veita þér nauðsynlega ráðgjöf og aðstoð.

Hjónaskilnaður

Þegar fólk hefur gengið í hjúskap, en af einhverjum ástæðum vill slíta hjúskapnum er hægt að óska eftir skilnaði að borði og sæng. Í undantekningartilfellum er hægt að óska eftir beinum lögskilnaði.

Ef hjón eru sammála um að slíta hjúskapnum geta þau leitað til sýslumanns en ella þurfa þau að leita eftir atbeina dómstóla.

Réttaráhrif við skilnað að borði og sæng

Þegar hjón skilja að borði og sæng, þá þarf annar aðilinn að flytja lögheimilið sitt á nýjan stað. Svigrúm er gefið til að leita nýs húsnæðis en taki það lengri tíma en eðlilegt má telja fellur skilnaður að borði og sæng niður.

Réttaráhrifin við skilnað að borði og sæng eru þau að aðilar hætta að bera gagnkvæma ábyrgð á sköttum og öðrum opinberum gjöldum hins og gagnkvæmur erfðaréttur fellur niður. Hins vegar er gagnkvæm framfærsluskylda þar til lögskilnaður hefur verið veittur.

Réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng falla niður ef hjón taka upp sambúð að nýju nema um sé að ræða stutta tilraun til þess að endurvekja hjúskapinn. Þá fellur skilnaður að borði og sæng einnig niður ef aðilar búa áfram saman umfram þann tíma sem eðlilegt má teljast að taki að afla nýs húsnæðis.

Til að heimilt sé að ganga í hjónaband með öðrum aðila, þá er ekki nægjanlegt að hafa skilið að borði og sæng, heldur þarf að koma til lögskilnaðar.

Réttaráhrif við lögskilnað

Öll lagatengsl milli hjóna hafa verið rofin og hvort um sig er heimilt að ganga í hjónaband að nýju.

Beiðni til sýslumanns um skilnað að borði og sæng

Séu aðilar sammála um að leita eftir skilnaði þarf að panta tíma hjá sýslumanni í því umdæmi sem hjón eru með lögheimili. Hjón geta mætt saman eða í sitt hvoru lagi.

Hjón þurfa að mæta til sýslumanns með sáttavottorð, samning um fjárskipti sín á milli, samkomulag um lífeyri, sem og varðandi forsjá barna sinna séu börn fyrir hendi.

Eftir að skilnaðarleyfi hefur verið gefið út, þá geta hjón, ef þau eru sammála óskað eftir lögskilnaði 6 mánuðum síðar. Ef þau eru ekki sammála, þarf að bíða 12 mánuði frá útgáfu skilnaðarleyfis og leita til dómstóla.

Beiðni til dómstóla um skilnað að borði og sæng

Ef hjón eru ekki sammála um að leita eftir skilnaði að borði og sæng, er ekki hægt að leita til sýslumanns. Þá þarf að leita til dómstóla og setja fram kröfu með formlegum hætti. Hið sama gildir séu aðilar ekki sammála um að fá lögskilnað.

Beinn lögskilnaður

Í undantekningatilfellum getur annað hjóna krafist lögskilnaðar án þess að fyrst hafi komið til skilnaðar að borði og sæng. Um er að ræða tilfelli ef annað hjóna játar hjúskaparbrot, líkamsárárás eða kynferðisbrot, tvíkvæni, eða hjón hafa slitið samvistir vegna ósamlyndis og getur þá hvort þeirra krafist lögskilnaðar þegar samvistaslit hafa staðið í tvö ár hið skemmsta. Til að hægt sé að leita eftir beinum lögskilnaði þurfa, líkt og þegar um skilnað að borði og sæng er að ræða, báðir aðilar að vera sammála um að leita eftir lögskilnaði á þessum grundvelli, ella þarf að leita til dómstóla.

Skilyrði/gögn sem eru nauðsynleg við hjónaskilnað

Sáttavottorð

Þegar hjón hafa börn á heimili sínu undir 18 ára aldrei verða þau að nálgast vottorð frá presti um að þeim hafi reynst árangurslaust að ná sáttum. Standi hjón utan trúfélaga, eða ef hjón eru ekki í sama trúfélagi, er hægt að fá slíkt vottorð hjá sýslumanni.

Sáttavottorð má ekki vera eldra en 6 mánaða þegar mætt er til sýslumanns og tekin er fyrir beiðni um skilnað að borði og sæng.

Barn eða börn hjóna

Ef hjón eiga saman börn yngri en 18 ára þarf að ákveða hvort þeirra skuli fara með forsjá barnanna eða hvort hún skuli vera sameiginleg.  Sama foreldrið þarf ekki að fara með forsjá allra barnanna. Sé ágreiningur um forsjána þarf að leysa úr þeim ágreiningi fyrir dómstólum.

Jafnframt þarf að ákveða meðlag með hverju barni. Samkvæmt lögum ber því foreldri að greiða meðlag sem ekki fer með forsjá barns. Tryggingastofnun ber ábyrgð á greiðslu einfalds meðlags og því getur það foreldri sem fer með forsjá barns snúið sér til Tryggingastofnunar. Ef hins vegar er ákveðið að meðlagið sé meira en einfalt, þá verður forsjárforeldri að innheimta meðlagið sjálft úr hendi hins foreldrisins. Tryggingastofnun veitir ekki ábyrgð á greiðslum umfram einfalt meðlag.

Þegar skilnaður er um garð genginn er hægt að leita til Tryggingastofnunar.

Ekki er skilyrði að ákveða hvernig hagað skal umgengni við börnin af hálfu þess sem fer ekki með forsjá þegar gengið er frá skilnaði hjóna.

Fjárskipti hjóna

Til að hægt sé að ganga frá skilnaði þarf að leggja fram skriflegan fjárskiptasamning og staðfesta samninginn við fyrirtöku hjá sýslumanni. Ef slíkur samningur er ekki fyrir hendi, er ekki hægt að samþykkja skilnað milli hjóna.

Í því tilfelli sem hjón eru eignalaus er yfirlýsing þeirra þess efnis færð í gerðabók sýslumanns og þarf þá ekki að leggja fram fjárskiptasamning.

Ef hjón  eru ekki sammála um fjárskiptin þarf að bera málið undir héraðsdóm og óska þess að opinber skipti á búinu fari fram til fjárslita. Sýslumaður getur veitt skilnaðarleyfi þegar úrskurður héraðsdóms um að opinber skipti skuli fara fram liggur fyrir.

Framfærsla hjóna

Hjón eru framfærsluskyld hvort við annað, því verður að  taka afstöðu til þess hvort annað hjóna skuli greiða hinu framfærslueyri eða lífeyri. Gagnkvæm framfærsluskylda fellur niður við lögskilnað.

Sé ágreiningur milli hjóna um greiðslu framfærslueyris eða lífeyris úrskurðar sýslumaður og sætir sú ákvörðun kæru til dómsmálaráðuneytisins.

Sambúðarslit

Sambúðarslit þegar fólk í sambúð á engin sameiginleg börn

Ef sambúðaraðilar eiga ekki saman börn þurfa þeir ekki að leita til sýslumanns vegna sambúðarslita. Sambúðaraðilar tilkynna aðeins um breytt lögheimili til Þjóðskrár Íslands og þá eru sambúðarslitin staðfest.

Eigi sambúðaraðilar sameiginlegar eignir er þeim í sjálfsvald sett hvernig þeir skipta þeim eignum, og ef til vill skuldum, milli sín.

Sambúðarslit þegar aðilar eiga saman barn eða börn

Þegar sambúðaraðilar eiga saman börn er þeim skylt að ákveða hvernig fari með forsjá barns eða barna, það er hvort hún verði hjá öðru foreldri eða sé sameiginleg svo og hvernig meðlagsgreiðslum með barni eða börnum skuli háttað. Séu aðilar sammála um hvernig staðið skuli að forsjánni geta aðilar leitað til sýslumanns, ella þarf að leita atbeina dómstóla.

Við fyrirtöku hjá sýslumanni þurfa sambúðaraðilar að leggja fram fæðingarvottorð barns eða barna. Fæðingarvottorð má nálgast hjá Þjóðskrá Íslands.

Ef aðilar eru sammála um hvernig forsjá barns/barna og meðlagsgreiðslum skuli háttað gefur sýslumaður út skjal til staðfestingar á sambúðarslitum.

Yfirleitt fá erfingjar um eitt ár til að ljúka skiptum dánarbús frá því að leyfi til einkaskipta er gefið út.

Þessi leið er háð samþykki allra erfingja, ella verður að fara í opinber skipti.

Barn eða börn sambúðaraðila

Ef sambúðaraðilar eiga saman börn yngri en 18 ára þarf að ákveða hvort þeirra skuli fara með forsjá barnanna eða hvort hún skuli vera sameiginleg.  Sama foreldrið þarf ekki að fara með forsjá allra barnanna. Sé ágreiningur um forsjána þarf að leysa úr þeim ágreiningi fyrir dómstólum.

Jafnframt þarf að ákveða meðlag með hverju barni. Samkvæmt lögum ber því foreldri að greiða meðlag sem ekki fer með forsjá barns. Tryggingastofnun ber ábyrgð á greiðslu einfalds meðlags og því getur það foreldri sem fer með forsjá barns snúið sér til Tryggingastofnunar. Ef hins vegar er ákveðið að meðlagið sé meira en einfalt, þá verður forsjárforeldri að innheimta meðlagið sjálft úr hendi hins foreldrisins. Tryggingastofnun veitir ekki ábyrgð á greiðslum umfram einfalt meðlag.

Þegar staðfest hefur verið af hálfu sýslumanns eða dómstóla hvernig forsjánni skuli háttað er hægt að leita til Tryggingastofnunar.

Ekki er skilyrði að ákveða hvernig hagað skal umgengni við börnin af hálfu þess sem fer ekki með forsjá þegar gengið er frá sambúðarslitum.

Um LOCAL lögmenn

LOCAL lögmenn er kraftmikil og metnaðarfull lögmannsstofa þar sem áhersla er lögð á samvinnu, bæði innan stofunnar og við viðskiptavini. Við leysum málið með þér og þínum til að létta á ykkar vangaveltum.

LOCAL lögmenn bjóða þér að senda okkur tölvupóst á local@locallogmenn.is um það sem þér og þínum liggur á hjarta og við svörum þér eins fljótt og kostur er.

Hér getur þú farið yfir á vefsíðu LOCAL lögmanna og kynnt þér aðra þjónustu í boði.